Post Covid Viðburðir?
GLEÐILEGT 2021!
2020 loksins búið og við erum að horfa fram á bjartari tíma.
Á síðasta ári var ekki mikið um knús og hittinga, þetta var öðruvísi ár og mjög lærdómsríkt, gott að vera kippt niður á jörðina og þurfa að hugsa ennþá lengra út fyrir kassann.
Heimsfaraldur neyðir fólk til að horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni. Íslendingar hafa ferðast mikið innanlands og innanhúss og fyrirtæki og einstaklingar hafa neyðst til að fresta öllum partíum eða færa þau yfir í fjarviðburða form á samskiptaforritum á netinu. Við hjá Kompaní Events nýttum okkur það bæði fyrir innanhús viðburði og viðburði sem við skipulögðum fyrir okkar kúnna og skipulögðum við hópefli og ferðir eftir sóttvarnarhólfum fyrirtækja. Starfsárið var heldur betur óhefðbundið, jafnvel fordæmalaust.

Landsmenn hafa verið að nota grímur, vinna heima, halda fjarlægð, halda sig í sínum „jólakúlum“ og spritta sig í gríð og erg og er komið tæpt ár síðan þetta allt byrjaði svo gamla normið virðist fjarlægt. Að horfa á þætti og myndir í sjónvarpi þar sem fólk knúsast, tekur í höndina á einhverjum og er í margmenni er nánast óþægilegt. Hlutir sem þóttu hið eðlilegasta mál pre-covid hugsar maður til núna og fær nánast nostalgíu tilfinningu, eins og að fá sér snakk úr skál í partýi, nota sama micrafoninn í karaoke, fara á tónleika og í keilu. Munið þið þegar allir fóru saman í keilu, notuðu sömu skóna, sömu kúlurnar og deildu svo mat af sömu diskunum?
Við þurfum að halda áfram að aðlaga okkur að ástandinu og getum hugsað til þess að eftir heimsfaraldurinn 1918 kom tímabil í heimssögunni sem er kallað „Roaring 20s“, það ætti að vera eitthvað að hlakka til!


Post Covid viðburðir
Þegar horft er á viðburði post-covid má alveg búast við að einhver aðlögunartími verði áður en allt fer í sama horf og áður. Að hafa möguleikann á að viðburðir séu aðgengilegir á netinu fyrir þá sem það kjósa, tímasettar klósettferðir fyrir gesti til að koma í veg fyrir traffík, snertilaus afgreiðsla matar og minni hópar á skemmtunum skipt eftir sóttvarnarsvæðum, allt gæti þetta komið til greina í framtíðinni. Tímasettu klósettferðirnar virðast kannski svolítið öfgakenndar en það þarf að hugsa um alla möguleika.
Með núverandi viðhorfi til hreinlætis og samveru munu viðburðir halda áfram að vera með breyttu sniði þar til hjarðónæmi næst. Til að halda áfram veginn og vonast til að við séum að færast inn í betri tíma þarf að hugsa í lausnum. Það er alltaf hægt að finna lausn ef maður leitar alveg eins og það er auðvelt að finna allt þetta neikvæða sem blasir við. Veljum frekar að hafa gaman og vera jákvæð, fara varlega og passa okkur og aðra.
Við ætlum allavega að vera bjartsýn og erum byrjuð að skipuleggja viðburði fyrir vor, sumar og haust 2021. Það skiptir okkur miklu máli að vera sveigjanleg í samræmi við tímana sem við lifum á varðandi afbókanir eða frestanir svo það er það sem við leggjum upp með.

Ábyrgar skemmtanakveðjur fyrir 2021!
Starfsfólk Kompaní Events